Að kaupa eða stofna félag

Nokkrir kostir við að kaupa starfandi fyrirtæki

Að kaupa starfandi fyrirtæki frekar en að stofna nýtt fyrirtæki getur haft marga kosti en er ekki án áhættu. Gera þarf sér grein fyrir hvaða kostir og gallar kunna að liggja fyrir við kaup á fyrirtæki. Hér eru nokkur dæmi um kosti.

  1. Byrjunarerfiðleikar sem oft fylgja stofnun fyrirtækis eru yfirlteitt yfirstaðnir að ári eða nokkrum árum liðnum. Peningar sem annars færu í kostnað vegna byrjunarerfiðleika kunna að vera betur varið í frekari uppbyggingu í keyptu fyrirtæki.
  2. Að kaupa fyrirtæki þýðir tafarlaust sjóðstreymi. Hafa þarf í huga að meira fé kann að þurfa að setja í reksturinn í byrjun, sérstaklega ef fara á i breytingar til uppbyggingar á rekstri. Oft er betra að fara sér hægt og ná tökum á rekstrinum áður en farið er í umbætur.
  3. Fyrirtækið mun hafa fjárhagslega sögu, sem gefur hugmynd um hvers má búast við. Mörg lítil fyrirtæki hafa meiri burði og arðsemi heldur en ársreikningar gefa til kynna. Mikil tækifæri geta legið í endurskipulagningu og/eða endurfjármögnun.
  4. Við kaup geta fylgt: viðskiptavinir, tengiliðir, viðskiptavild, birgjar, starfsfólk, húsnæði, búnaður og lager. Langan tíma getur tekið að ná upp þessum atriðum og endurspeglast áorðinn kostnaður í viðskiptavild við kaup á fyrirtæki.
  5. Markaður fyrir vöru eða þjónustu er þegar kominn. Með kaupum á fyrirtæki er nauðsynlegt að kaupandi sé búinn að gera sér grein fyrir hverju hann kann að áorka til viðbótar. Verðmæti kunna einnig að liggja í að halda rekstri óbreyttum, að minnsta kosti í byrjun.
  6. Núverandi starfsmenn og stjórnendur munu hafa reynslu sem þeir geta miðlað. Nauðsynlegt er að tryggja að þekking haldist í fyrirtækinu.
  7. Starfandi fyrirtæki er fullfjármagnað. Kaupandi getur haft val á að kaupa fyrirtæki án skulda, telji hann sig hafa aðra og/eða betri leiðir til fjármögnunar, eða að kaupa félag með tilteknum skuldum.
  8. Síðast en ekki síst er skattalegur ávinningur af að kaupa félag frekar en að stofna fyrst félag með litlu hlutafé og kaupa síðan rekstur til félagsins. Ávinningur skapast þegar til sölu félagsins kemur.

Hjá Kompaní fyrirtækjasölu er ávallt kannaðir þeir kostir sem fyrirtæki í sölumeðferð kann að hafa. Oft reynast meiri tækifæri í rekstri félags en endilega kemur fram í ársreikningi. Þannig kann fyrirtæki, sem skilar litlum eða engum rekstrarárangri svo árum skiptir, að búa yfir góðum rekstrargrunni. Þessar upplýsingar eru teknar saman og komið til skila til áhugasamra kaupenda, en eru oft ekki auglýstar opinberlega.

Recommended Posts